Með því að smella á „Samþykkja“ staðfestir þú að vafrakökur séu geymdar í tækinu þínu til að auka notendaupplifun, greina notkun síðunnar og aðstoða við markaðsstarf okkar. Skoðaðu persónuverndarstefnu okkar fyrir frekari upplýsingar.
5.30.22

Sviðslistamiðstöð hlýtur styrk úr Barnamenningarsjóði

Sviðslistamiðstöð Íslands hlaut 6 milljón króna styrk úr Barnarmenningarsjóði en sjóðurinn styrkir 34 metnaðarfull verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 92 milljónir króna. Alls bárust 106 umsóknir og var sótt um tæplega fjórfalda þá upphæð sem sjóðurinn hafði til úthlutunar eða rúmar 380 milljónir króna. Úthlutun var tilkynnt við athöfn í skála Alþingis á degi barnsins, sunnudaginn 29. maí 2022. Hæstu styrkina fengu Listasafn Árnesinga fyrir verkefnið Smiðjuþræðir,og Sviðslistamiðstöð Íslands fyrir verkefnið Sviðslistir fyrir alla.

Sviðslistir fyrir alla eru kvikmyndaðir þættir sem hafa það að markmiði að opna augu barna og ungmenna í grunnskólum um land allt fyrir fjölbreytileika sviðslista. Þar verður kíkt á bakvið tjöldin, rýnt í aðferðir og leyndardómar afhjúpaðir. Kynnt verða fjölbreytt störf og áhugaverðir listamenn af vettvangi sviðslista, með það að markmiði að dýpka upplifun og efla listlæsi barna bæði sem njótendur og þátttakendur í sviðslistum. Verkefninu verður miðlað gegnum Listveitu Listar fyrir alla. Verkefnið er unnið í samstarfi við List fyrir alla og Þjóðleikhúsið.

Fleiri sviðslistatengd verkefni hlutu styrk úr Barnamenningarsjóði m.a. Hringleikur sirkuslistafélag fyrir MegaWhat?, RVK Fringe fyrir æskulýðsdagskrá, Anna Kolfinna Kuran fyrir Feminískt Reif á Reykjavík Dance Festival, sviðslistakonurnar Salka Gullbrá og Hrefna Lind fyrir Barnabærinn, Pera Óperkollektív fyrir óperu- og söngverkefni fyrir börn á Óperudögum í Reykjavík og Kammerhópurinn í Reykjavík í samstarfi við leikfélagið Fljúgandi Fiska fyrir verkefnið Látra Björg í heimabyggð.

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.